Íslenski boltinn

Katrín spilar með Klepp í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir.
Katrín Ásbjörnsdóttir. Vísir/Daníel
Katrín Ásbjörnsdóttir mun spila með norska úrvalsdeildarliðinu Klepp í sumar en þetta staðfesti þjálfari liðsins, Jón Páll Pálmason, við íþróttadeild 365.

Katrín er 22 ára gamall sóknarmaður sem er uppalin í KR en hefur spilað með Þór/KA frá árinu 2012. Katrín hefur verið í kringum A-landsliðið en hefur oftar en ekki þurft að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla.

Katrín var einnig óheppin með meiðsli síðasta sumar og lék aðeins helminginn af leikjunum í Pepsi-deildinni en var með 5 mörk í 9 leikjum.

Hennar besta tímabil var sumarið 2012 þegar hún hjálpaði Þór/KA að verða Íslandsmeistari í fyrsta skiptið með því að skora 12 mörk í 17 leikjum.

Klepp endaði í níunda sæti af tólf liðum í norsku úrvalsdeildinni í fyrrasumar en það var fyrsta tímabil liðsins undir stjórn Jóns Páls Pálmasonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×