Íslenski boltinn

Viktor Bjarki snýr aftur í Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viktor Bjarki Arnarsson í leik með Fram síðasta sumar.
Viktor Bjarki Arnarsson í leik með Fram síðasta sumar. Vísir/Vilhelm
Viktor Bjarki Arnarsson, sem lék með Fram í Pepsi deild karla í fótbolta á síðasta sumri snýr aftur í sitt uppeldisfélag og spilar með Víkingum í Pepsi deildinni á komandi sumri samkvæmt heimildum Vísis.

Þetta er í annað sinn sem Viktor Bjarki snýr aftur í Víkina. Viktor Bjarki kom heim úr atvinnumennsku árið 2004. Viktor Bjarki lék síðast með Víkingi sumarið 2006 en hann er 31 árs miðjumaður.

Viktor Bjarki hefur samkvæmt heimildum íþróttadeildar verið að æfa hjá KR undir stjórn Bjarna Guðjónssonar sem þjálfaði hann síðasta sumar hjá Fram en ákvað hinsvegar að semja við Víkinga.

Viktor Bjarki var lánaður til Fylkis sumarið 2005 en spilaði með Víkingi í efstu deild sumarið 2006 og var þá kjörinn besti leikmaður úrvalsdeildar karla.

Eftir þriggja ára dvöl í Noregi kom Viktor Bjarki heim til Íslands og spilaði með KR til ársins 2012 en síðustu tvö ár lék hann með Fram.

Viktor Bjarki skoraði 10 mörk í 33 úrvalsdeildarleikjum með Víkingum 2004 og 2006 en hann hefur alls spilað 168 leiki í efstu deild og skorað í þeim 26 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×