Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á sér 35 ára sögu á Sauðárkróki en fyrir þremur árum var byrjað að bjóða upp á svokallað dreifnám í nýjum útibúum skólans á Blönduósi, Hvammstanga og Hólmavík. Um 15 nemendur stunda námið í vetur á hverjum stað, alls 46 nemendur, að sögn Ingileifar Oddsdóttur skólameistara.
Starfsstöðin á Hvammstanga er í félagsheimilinu en umsjónarmaður dreifnámsins þar, Rakel Runólfsdóttir félagsráðgjafi, segir það hafa mjög mikla þýðingu fyrir samfélagið.

Kennararnir eru staðsettir í skólanum á Sauðárkróki, í fréttunum sést Ásgeir H. Aðalsteinsson kenna stærðfræði í gegnum netsamband. En hver er árangurinn í samanburði við hefðbundna kennslu?
„Ég held að það hafi nú ekkert verið mælt nákvæmlega hvort einkunnir á prófi komi betur eða verr út. En ég tek eftir einu; að þau mæta betur í dreifnáminu,” segir Ásgeir.

„Áður þurftu bara krakkarnir að fara í burtu. Þá þurfti fólk að gera það upp við sig hvort það vildi senda börnin sín burtu og halda úti tveimur heimilum jafnvel, þar sem ekki er heimavist, eða þá að fara með þeim,” segir Rakel.
„Þannig að þessi viðbót er ofsalega mikilvæg fyrir byggðir eins og þessa.”
