Innlent

„Frelsi stórfyrirtækja til að stækka er frelsi sem ég gef ekkert fyrir“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Erpur "Blazroca“ Eyvindarson rappari og Helgi Hrafn Gunnarsson alþingismaður voru gestir í nýjasta þætti hlaðvarpsins Hip Hop og Pólitík.
Erpur "Blazroca“ Eyvindarson rappari og Helgi Hrafn Gunnarsson alþingismaður voru gestir í nýjasta þætti hlaðvarpsins Hip Hop og Pólitík.
„Eitt versta einræði mannkynssögunnar er stórfyrirtækjaræði,“ sagði Erpur Eyvindarson rappari í nýjasta þætti Hip Hop og Pólitík á Vísi. 

Líflegar umræður sköpuðust í þættinum um félagslegt réttlæti og raunverulegt frelsi einstaklingsins í samfélaginu en Erpur og Helgi Hrafn Gunnarsson alþingismaður Pírata voru gestir þáttarins. 

Hvað er frelsi? Er það frelsi að borga sanngjarnt verð fyrir raforku þegar allir þurfa á raforku að halda og það er aðeins eitt fyrirtæki í einokunarstöðu sem getur veitt þá þjónustu? Er eðlilegt að slíkt fyrirtæki sé ekki í einkaeigu eða ef svo er þá séu hendur þess bundnar með það fyrir augum að tryggja rétt notanda þjónustunnar? Og gildir ekki það sama um mat eða aðrar nauðsynjar? Fjörug umræða skapaðist um þetta í þættinum. 

Innbygð hræsni hins kapítalíska frelsis

Erpur fór mikinn og rökstuddi að hið kapítalíska frelsi sem ungir hægrimenn hér á landi hafi boðað feli í reynd í sér innbyggða hræsni.   

„Einkavæðing átti að vera ídeal hugmynd um frelsi en þeim sem er umhugað um frelsi er ekki umhugað um það að Pósturinn hafi verið einkavæddur. Það er ekki frelsi sem skiptir almenning neinu máli. Frelsi stórfyrirtækja til að vera stærri er frelsi sem ég gef ekkert fyrir því það mun á endanum bitna á okkar frelsi. Frelsi okkar sem einstaklinga endurspeglast ekki í frelsi til að velja fjórar tegundir af gosdrykk sem eru alllar eins á litinn en heita mismundandi nöfnum,“ sagði Erpur. Hann nefndi að frelsishugtakinu hefði ekki verið rænt í Suður-Ameríku. Menn tengdu ekki orðið "líbertad" þar við einkavæðingu á einhverjum bönkum. 

Hip Hip og Pólitík er nýtt hlaðvarp sem verður eini sinni í viku á Vísí.
„Verstu andstæðingar lýðræðis og frelsis í mannkynssögunni eru fultrúar valdasamþjöppunar. Eitt sinn voru það kóngar og klerkar, það hafa verið einræðisstjórnir en eitt versta einræði mannkynssögunnar er stórfyrirtækjaræði,“ sagði Erpur. 

Stálu fyrirtækjasinnar frelsishugtakinu? 

Heimfæra má umræðu úr nýjasta þættinum af Hip Hop og Pólitík yfir á rökræðu um grunnstef um kapitalískt frelsi og nytjahyggju og hagsmuni heildarinnar. Færa má ákveðin rök fyrir því að fyrirtækjaræðið hafi stolið frelsishugtakinu. Frelsi fyrirtækjanna hafi verið tekið ofar frelsi einstaklingsins. Gleymst hafi í hugmyndafræðilegri orðræðu um lága skatta fyrirtækja og aukið frjálsræði þeirra að gæta hagsmuna einstaklinganna sjálfra gagnvart fyrirtækjunum.

Ákveðnar reglur, eins og samkeppnislöggjöf, hafa þann tilgang að vernda þetta frelsi. Þetta er innbyggt í löggjöf Evrópusambandsins (en íslensk samkeppnislöggjöf speglar að miklu leyti ESB-tilskipanir um sama efni) og löggjöf annarra vestrænna ríkja sem vilja vernda neytendur fyrir átroðningi og græðgi fyrirtækja. Oft á tíðum er erfitt að koma þessum málflutningi að hjá hreinræktuðum kapítalistum. Kröfur fyrirtækjanna snúast að miklu leyti um minni samkeppnishindranir. Meira frelsi fyrirtækjanna á kostnað neytenda. Þannig ganga hagsmunir fyrirtækjanna í berhögg við hagsmuni einstaklinganna. Jafnvægislistin til að tryggja hagsmuni beggja felst í einhvers konar leið meðalhófs milli þessara andstæðu hagsmuna.

Í þættinum var einnig umræða um menntakerfið í Bandaríkjunum og á Íslandi og það helsi sem minnihlutahópar eins og svartir búa við í Bandaríkjunum. Var þetta sett í samhengi við lagið „They Schools“ með bandarísku rappsveitinni Dead Prez en í texta lagsins kemur fram hvöss gagnrýni á þá þrýstihópa sem viðhalda helsi svarta mannsins í bandarísku samfélagi. Þeir sömu stjórni menntakerfinu og fangelsiskerfinu og þannig viðhaldi kerfi óréttlætis og áþjánar. 

Í þættinum var frumfllutt nýtt rapplag Erps Eyvindarsonar og má heyra það í lok þáttarins. Hægt er að hlusta á Hip Hip og Pólitík með því að smella hér fyrir ofan eða á hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×