Íslenski boltinn

Arnar: Lærði mest af fyrrverandi landsliðsmarkverði Belgíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Grétarsson tók við þjálfun Breiðabliks í haust eftir fjögurra ára dvöl erlendis þar sem hann starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála, fyrst hjá AIK Aþenu í Grikklandi og svo Club Brugge í Belgíu.

Arnar er uppalinn Bliki og er næstleikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 289 leiki. Hann er því kominn á kunnuglegar slóðir en hann lék síðast með Breiðabliki 2009, þegar liðið varð bikarmeistari í fyrsta og eina sinn í sögu félagsins.

Guðjón Guðmundsson kíkti í heimsókn í Kópavoginn á dögunum og tók Arnar tali.

Arnar er mjög skipulagður í sínu starfi en hann segist hafa lært mikið af Michel Preud'homme, fyrrverandi landsliðsmarkverði Belgíu og núverandi þjálfara Club Brugge, þar sem Arnar starfaði áður.

„Ég lærði hvað mest, undir það síðasta í Belgíu, af Michel Preud'homme. Það er í raun sá þjálfari sem ég tek mest frá,“ sagði Arnar.

„Hann er alveg gríðarlega skipulagður þjálfari og hvert sem hann hefur farið, þá mætir hann alltaf fyrstur og fer alltaf síðastur.

„Hann fór vel yfir hvern einasta leik og leikgreindi mjög vel. Og hann var með flotta myndbandsfundi, einhverja þá bestu sem ég hef séð, bæði sem yfirmaður íþróttamála og leikmaður.

„Ég hef verið ansi lengi í þessu en aldrei kynnst svona vinnubrögðum, þar sem er farið hnitmiðað ofan í hvert einasta atriði,“ sagði Arnar en í innslaginu, sem má sjá hér að ofan.

Þar ræðir hann einnig við Gaupa um þolþjálfun, en hann lætur leikmenn Breiðabliks stunda útihlaup, sem heyra sögunni til hjá mörgum félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×