Íslenski boltinn

KR enn án stiga í Lengjubikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Guðjónsson skoraði sigurmark Fjölnis gegn KR í Egilshöllinni.
Þórir Guðjónsson skoraði sigurmark Fjölnis gegn KR í Egilshöllinni. vísir/daníel
Fimm leikir fóru fram í Lengjubikar karla í fótbolta í dag.

Í fyrsta leik dagsins unnu Skagamenn 2-0 sigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar.

KR-ingar eru enn án stiga í riðli 3 en bikarmeistararnir töpuðu fyrir Fjölni í Egilshöllinni í dag, 1-0.

Þórir Guðjónsson skoraði eina mark leiksins á 30. mínútu en Fjölnir vann fyrsta leik sinn í Lengjubikarnum einnig 1-0, gegn KA.

Í sama riðli vann KA 2-0 sigur á Fram í leik tveggja 1. deildarliða í Boganum á Akureyri.

Atli Sveinn Þórarinsson og Ævar Ingi Jóhannesson skoruðu mörkin á síðustu 20 mínútum leiksins.

Akureyringar eru með þrjú stig eftir tvo leiki en Fram er enn án stiga.

HK vann óvæntan sigur á FH í riðli 1 á þriðjudaginn og Kópavogsbúar fylgdu honum eftir með því að rúlla yfir BÍ/Bolungarvík í Kórnum í dag.

Úrslitin voru ráðin í hálfleik en HK skoraði fjögur mörk á 10 mínútna kafla í fyrri hálfleik. Lærisveinar Þorvaldar Örlygssonar létu eitt mark duga í seinni hálfleik. Lokatölur 5-0, HK í vil.

Guðmundur Atli Steinþórsson og Aron Þórður Albertsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir HK og Árni Arnarson eitt.

Í riðli 3 unnu Keflvíkingar sigur á Þórsurum með tveimur mörkum gegn einu.

Jóhann Helgi Hannesson kom Þór yfir á 34. mínútu og þannig var staðan fram á 77. mínútu þegar nafni hans Birnir Guðmundsson jafnaði metin úr vítaspyrnu.

Jóhann Birnir skoraði svo öðru sinni úr vítaspyrnu á lokamínútunni og tryggði Keflvíkingum stigin þrjú.

Keflavík er með sex stig í riðli 3, ásamt ÍA. Þórsarar eru hins vegar með þrjú stig sem þeir fengu fyrir sigur á Fjarðabyggð síðasta sunnudag.

Úrslit dagsins:

ÍA 2-0 Stjarnan

HK 5-0 BÍ/Bolungarvík

Keflavík 2-1 Þór

KA 2-0 Fram

KR 0-1 Fjölnir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×