Erlent

Sváfu á verðinum gagnvart Úkraínu og mislásu Rússa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
David Cameron, forsætisráðherra Breta, og Vladimir Putin, forseti Rússlands.
David Cameron, forsætisráðherra Breta, og Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/Getty
Bretland og Evrópusambandið sváfu á verðinum gagnvart ástandinu í Úkraínu og mislásu rússnesk stjórnvöld algjörlega. Evrópusambandið hafi of lengi byggt samskipti sín við Rússa á bjartsýni um að það væri að verða lýðræðisríki en slíkt sé fjarri lagi.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu lávarðadeildar breska þingsins um átökin í austurhluta Úkraínu sem nú hafa staðið í tæpt ár.

Í skýrslunni segir að Evrópusambandið hafi ekki gert sér grein fyrir mikilli andstöðu Rússa við nánara samstarf sambandsins og Úkraínu. Þá hafi bresk yfirvöld ekki látið nógu mikið til sín taka í lausn Úkraínudeilunnar.

Stuttu áður en skýrslan var birt hafði Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, kallað David Cameron, forsætisráðherra Breta, á sinn fund til að ræða ástandið í Úkraínu.

Enn er hart barist í austurhluta landsins þrátt fyrir vopnahlé sem samið var um í liðinni viku og tók gildi á sunnudag.


Tengdar fréttir

Áfram barist um bæinn Debaltseve

Hvorki úkraínskir uppreisnarmenn né stjórnarher Úkraínu hafa viljað hætta átökum um 25 þúsund manna bæ, þrátt fyrir að samið hafi verið um vopnahlé sem átti að hefjast um helgina. Hvorugir vilja flytja þungavopn sín frá bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×