Skoðun

Ekkert annað en jafnrétti

Heiða Björg Hilmisdóttir og Margrét Lind Ólafsdóttir skrifar
Nú sem aldrei fyrr er brýnt að benda á mikilvægi baráttu fyrir jafnrétti kynjanna einmitt á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Margt hefur áunnist á Íslandi á fjölda sviðum en enn eigum við langt í land. Kynbundinn launamunur er enn til staðar, konur hafa ekki sömu tækifæri og karlar til starfa, enn eru konur áreittar, beittar heimilisofbeldi, nauðgunum og njóta ekki alltaf réttlátrar málsmeðferðar af því að þær eru konur.

Enn þann dag í dag hafa konur ekki kosningarétt í mörgum löndum, ekki aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu, getnaðarvörnum, eru seldar í hjónabönd, líflátnar,  búa við bágar aðstæður og eru fórnarlömb stríðsátaka. Mansal er dapurlegur raunveruleiki margra kvenna í heiminum þar sem virðing fyrir manneskjunni er að engu hafður. Kvenlíkaminn er notaður sem kyntákn og söluvara og klámvæðingin vex og dafnar. Notkun hefndarkláms verður æ algengari og afþreyingarefni sem höfðar til ungs fólks í dag er gegnumsýrt af klámi og skilaboðin sem þau fá eru að klám sé raunverulegt og í góðu lagi.

Þess vegna er baráttunni um jafnrétti kynjanna hvergi nær lokið. Þess vegna þurfum við ávallt að hafa að leiðarljósi að allar konur hvar sem er eiga að búa við sama rétt og sömu tækifæri og karlar. Við eigum aldrei að sætta okkur við neitt annað en fullt jafnrétti kynjanna. 

Höfundar eru formaður og varaformaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×