Viðskipti innlent

Ábyrgur fyrir láni í 13 ár án þess að vita af því

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjartmar Þórðarson.
Bjartmar Þórðarson. Vísir/Stefán/E.Ól
Leikarinn Bjartmar Þórðarson fékk á dögunum bréf frá Lánasjóði íslenskra námsmanna um að hann væri ábyrgur fyrir láni, sem móðir hans var áður ábyrg fyrir og systkin hans tók. Móðir Bjartmars lést fyrir þrettán árum en lánið er um 25 ára gamalt.

„Samkvæmt þessu lítur út fyrir að ég hafi verið ábyrgðarmaður í þrettán ár á láni sem ég vissi ekki að ég væri ábyrgðarmaður fyrir. Eflaust eru lánin fleiri þar sem ég á fleiri systkini,“ segir Bjartmar í samtali við Vísi.

Bjartmar telur að verið sé að senda út bréf til fólks í kjölfarið á máli sem að Guðmundur Steingrímsson, systkini hans og móðir töpuðu í byrjun febrúar. „Mér finnst þetta áhugavert í ljósi þessa.“

„Ef að svona ábyrgð á námsláni erfist eru ábyrgðirnar orðnar ofboðslega víðtækar og gífurlega margir komnir í ábyrgð aðra. Það er það sem að mér finnst vera áhugavert við þetta og í rauninni skelfilegt.“

Þetta vekur spurningar um hve margir Íslendingar eru nú ábyrgir fyrir námslánum skyldmenna sinna, án þess að vita af því.

„Það eru greinilega ofboðslega margir Íslendingar sem eru ábyrgir fyrir lánum sem að þeir vita ekki um og margir sem eiga eftir að verða ábyrgir fyrir mörgum og miklum lánum,“ segir Bjartmar.

Þar að auki segir Bjartmar að ekki liggi fyrir hvaða áhrif þetta hafi á bú sem séu til skipta.

„Þegar verið er að skipta búi gerir fólk sé ekki endilega að þetta sé hluti af þeim ábyrgðum og kröfum sem að fylgja.“ Bjartmar segir þörf á meiri umræðu um þessi mál og hvert Íslendingar vilji að þetta stefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×