Innlent

Segir flest benda til þess að stórkaupmenn hugsi aðeins um eigin hag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. Vísir/GVA
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, var harðorður í garð kaupmanna í landinu í setningarræðu sinni á Búnaðarþingi í dag.

Sagði hann meðal annars ákveðna stórkaupmenn halda því fram að hagur íslenskra neytenda fælist frekar í innflutningi á matvöru heldur en innlendri framleiðslu.

„Þetta hafa þeir oft gert undir þeim formerkjum að þeir beri hag neytenda fyrir brjósti þrátt fyrir að flest bendi til þess að þeir séu að aðeins að hugsa um eigin hag,“ sagði Sindri.

Hann sagði vöruverð til neytenda ekki lækka heldur hafi arður stóru verslunarkeðjanna aukist ár frá ári.

Reiðubúinn að drekka latté með íslenskri mjólk með kaupmönnum

„Og hverjir borga hann? Eru það ekki neytendurnir? Nýleg dæmi um verðþróun einstakra búvara, þar sem verð til bændanna lækkar en verð til neytanda hækkar, sýna það svart á hvítu að stóru verslunarkeðjurnar verða einfaldlega að gera hreint fyrir sínum dyrum og koma heiðarlega fram við neytendur.“

Sindri sagði að það væri hins vegar afleitt að standa í endalausum ágreiningi við verslunina í landinu og bætti við að bændur og kaupmenn þyrftu að skilja hvor aðra.

„Ég lýsi mig reiðubúinn til að drekka innflutt kaffi, þó helst latté með íslenskri mjólk, með hverjum þeim innan verslunarinnar sem tilbúinn er að ræða þessi mál á yfirveguðum nótum,“ sagði formaður Bændasamtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×