Viðskipti innlent

Unnu Lúðurinn fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins í sjötta sinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Starfsfólk H:N Markaðssamskipta fagnaði áfanganum í nepjunni í Bankastræti og við sama tilefni blésu framkvæmdastjórarnir tveir þeir Ingvi Jökull Logason og Guðmundur Löve í lúðra.
Starfsfólk H:N Markaðssamskipta fagnaði áfanganum í nepjunni í Bankastræti og við sama tilefni blésu framkvæmdastjórarnir tveir þeir Ingvi Jökull Logason og Guðmundur Löve í lúðra. Mynd: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Auglýsingastofan H:N Markaðssamskipti hlaut íslensku markaðsverðlaunin fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins við afhendingu Lúðursins síðastliðinn föstudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá auglýsingastofunni.

Stofan hefur verið sigursæl í þessum flokki en þetta er í sjötta sinn sem þau falla H:N í skaut af þeim sjö skiptum sem þau hafa verið afhent. Það var auglýsingaherferð sem H:N markaðssamskipti unnu fyrir Happdrætti SÍBS sem þótti skila bestum árangri að þessu sinni.

Ingvi Jökull Logason framkvæmdastjóri HN markaðssamskipta segir að það sé alltaf gaman að fá verðlaun. „Við höfum í gegnum tíðina fengið ótal tilnefningar og fjölda Lúðra, en okkur þykir sérstaklega vænt um að fá verðlaun fyrir árangur. Það er jú þess vegna sem við gerum það sem við gerum, til þess að ná árangri fyrir viðskiptavini okkar. Það er það sem skiptir mestu máli í enda dagsins.“

Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS segir að viðurkenningin sé mjög mikilvæg fyrir SÍBS, sem fyrir nokkrum árum hafi ráðist í mikla endurskoðun á sinni starfsemi. „Við höfum gefið SÍBS sterkari rödd í lýðheilsu- og forvarnarmálum. Happdrætti SÍBS er auk þess bakhjarl allra framkvæmda á Reykjalundi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×