Íslenski boltinn

Nýliðar Leiknis fá framherja frá Breiðabliki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Páll Sigurðsson og Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknis.
Elvar Páll Sigurðsson og Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknis. mynd/leiknir.com
Breiðablik og Leiknir hafa komist að samkomulagi um félagaskipti framherjans Elvars Páls Sigurðarssonar, en hann er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við Breiðholtsliðið.

Þetta kemur fram á heimasíðum Breiðabliks og Leiknis, en Elvar Páll á að baki 40 meistaraflokksleiki og hefur skorað í þeim þrjú mörk.

Elvar Páll hefur áður verið lánaður frá Breiðabliki til KA, ÍR og Tindastóls í 1. deildinni, en nú er hann endanlega farinn frá Blikum.

Elvar Páll er fimmti leikmaðurinn sem nýliðar Leiknis fá til sín en þeir spila nú í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Breiðholtsliðið er búið að fá til sín Arnar Frey Ólafsson frá Fjölni, Atla Arnarson frá Tindastóli, Halldór Kristinn Halldórsson frá Keflavík og Kolbeinn Kárason frá Val.

Elvar Páll kvaddi félaga sína í Breiðabliki með kveðju á Facebook. „Í hádeginu skrifaði ég undir tveggja ára samning við Leikni Reykjavík og mun því spila á Ghetto Ground á næsta tímabili. Það er alltaf erfitt að yfirgefa svona flott félag og frábæran hóp af topp mönnum eins og þið eruð en ég tel þetta vera rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti. Þykir rosalega vænt um ykkur og óska ykkur alls hins besta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×