„Svo er hann bara eitthvað svo „likeable“ gæi,“ sagði Ragnar um Sigurð sem hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína í myndbandinu þar sem hann syngur með laginu Crystals af mikilli innlifun.
Ragnar tók þó fram að hann hefði ekki verið á landinu þegar myndbandið var tekið upp en hins vegar var söngkona Of Monsters and Men, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, á staðnum og segir Sigurð hafa staðið sig ótrúlega vel. „Hann er bara svo flottur gæi. Þetta var hugmynd sem kom svo rosalega skyndilega,“ sagði Nanna og sagði skeggvöxt Sigurðar hafa heillað þau í bandinu upp úr skónum.
„Svo stóð hann sig alveg ótrúlega vel. Hafði ekki mikið fyrir þessu,“ sagði Nanna. Vísir ræddi við Sigurð á mánudag skömmu eftir að myndbandið hafði verið birt á myndbandavefnum YouTube og sagði hann við það tilefni að hann sé mikill aðdáandi Of Monsters and Men og það hefði ekki minnkað þegar þau báðu hann um að syngja með laginu.
Hljómsveitin mun senda frá sér sína aðra breiðskífu í sumar sem mun bera titilinn Beneath the Skin og mun halda tónleika í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í ágúst.