Innlent

Tíu til fimmtán milljóna tjón á eignum Mosfellsbæjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Haraldur Sverrisson, er bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson, er bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Skemmdir á eigum Mosfellsbæjar í óviðrinu um síðastliðna helgi eru metnar á tíu til fimmtán milljón króna. Þar eru skemmdir á eignum bæjarbúa ekki teknar með. Mikill vatnselgur myndaðist í bænum og urðu lækir að virtist að stórfljótum.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa kortlagt þær skemmdir sem urðu á eignum bæjarins í óveðrinu um síðastliðna helgi.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir þær að mestu snúa að göngustígum, reiðstígum og brúm. Þá skemmdust tvö strætóskýli og annað þeirra er ónýtt og hleðslur og varnarveggir við ár og læki skemmdust einnig.

„Það eru engar skemmdir á húsum eða slíkum hlutum hjá Mosfellsbæ, en það eru skemmdir á húseignum íbúa, sem við höfum ekki glögga mynd af,“ segir Haraldur. „Við metum tjónið á bilinu tíu til fimmtán milljónir króna, en það tekur einhvern tíma að koma þessu öllu saman í lag.“

Starfsmenn bæjarins vinna nú að því að gera ráðstafanir svo fólki stafi ekki hætta af þeim skemmdum sem urðu. Setja upp bráðabirgða brýr, eða taka í burtu, og gera ráðstafanir svo fyllingar og slíkt detti ekki niður.

Haraldur var á ferðinni frá sex um morguninn á laugardaginn, ásamt starfsmönnum Þjónustumiðstöðvar Mosfellsbæjar og áhaldahússins og fleirum.

Á vef Mosfellsbæjar segir að ástandið hafi verið verst í Reykjahverfi, meðfram Varmánni og í Baugshlíð. Loka þurfti vegum á tveimur stöðum til að beina vatnsflaumnum í farveg og koma í veg fyrir frekara tjón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×