Enski boltinn

Gary Neville: Þetta er rétta leikkerfið fyrir Van Gaal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini, Juan Mata og Wayne Rooney fagna marki Fellaini.
Marouane Fellaini, Juan Mata og Wayne Rooney fagna marki Fellaini. Vísir/Getty
Gary Neville, knattspyrnuspekingur á Sky Sports, hrósaði liði Manchester United eftir 3-0 afgreiðsluna á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær en með sigrinum kom United-liðið sér betur fyrir í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.

Marouane Fellaini, Michael Carrick og Wayne Rooney skoruðu mörkin í fyrri hálfleiknum og Tottenham átti ekki svör við liði Manchester United sem spilaði leikkerfið 4-3-3 með góðum árangri. Gary Neville valdi Marouane Fellaini besta mann vallarins.

„Þegar hann tók við liðinu þá héldu allir að hann ætlaði að spila þetta kerfi. Hann fór hinsvegar að spila með þriggja manna vörn á undirbúningstímabilinu eftir að hafa spilað svoleiðis með hollenska landsliðinu á HM í Brasilíu," sagði Gary Neville á Sky.

„Hann spilaði með þriggja manna vörn allt undirbúningstímabilið en hætti því síðan eftir nokkra leiki. Þá spilaði liðið með demanta-miðju en í þessum leik spilaði liðið 4-3-3. Það er kerfið sem allir héldu að United-liðið myndi spila undir hans stjórn," sagði Neville.

„Ég held að það séu engar líkur á því að hann breyti um leikkerfi í bráð enda var þetta langbesta frammistaða Manchester United á tímabilinu. Tempóið í leik liðsins var miklu betra en það hefur verið," sagði Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×