Enski boltinn

Van Gaal bauð lið City velkomið í rottuhlaupið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, talaði um það eftir 3-0 sigurinn á Tottenham í gær að nágrannarnir í Manchester City séu komnir inn í baráttuna um sætin í Meistaradeildinni.

Manchester City hefur verið með gulltryggt sæti í Meistaradeildinni í huga flestra en eftir tap City á móti Burnley um helgina munar aðeins tveimur stigum á Manchester-liðunum.

Auk þessa á Liverpool möguleika á því að verið aðeins fjórum stigum á eftir Manchester City vinni Liverpool Gylfa Þór Sigurðsson og félaga í Swansea í Wales í kvöld.

„Þetta er rottuhlaup og við erum núna aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu. Þetta er gott fyrir okkur, gott fyrir stuðningsmennina og gott fyrir fjölmiðlana því nú hafa þeir nóg af efni," sagði Louis van Gaal við BBC.

„Við höfum beðið í langan tíma eftir svona sigri. Þetta var mjög góð frammistaða á móti góðu liði eins og Tottenham," sagði Louis van Gaal.

„Ég er mjög ánægður með leikmennina að spila svona vel í svona mikilvægum leik á móti liði sem er að berjast við okkur. Kannski er þetta leikurinn sem kveikir í okkur," sagði Van Gaal.

„Við erum að taka eitt skref í einu og næsti leikur er á móti Liverpool. United hefur víst ekki unnið oft á Anfield upp á síðkastið," sagði Van Gaal.

Manchester United hefur nú unnið 13 af síðustu 19 deildarleikjum sínum og aðeins tapað tveimur þeirra.

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×