Innlent

Stormur um vestanvert landið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum leiðum.
Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum leiðum. vísir/pjetur
Spáð er sunnanstormi um landið vestanvert í nótt og fram yfir hádegi á morgun en þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Búast má við bylgjóttum vindi og snörpum hviðum á norðanverðu Snæfellsnesi, 30-45 m/s. Eins á Vestfjörðum s.s. við Hnífsdal og í Arnardal á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Eins verða nokkuð harðir hnútar undir Hafnarfjalli um tíma í fyrramálið.

Víða er varað við vegaskemmdum þar sem slitlag hefur skemmst í hvassviðri. Í tilkynningunni frá Vegagerðinni kemur fram að vegfarendur séu beðnir að fara með gát. 

Á Vesturlandi er víða hálkublettir þó er ófært á Fróðárheiði og Bröttubrekku. Þæfingsfærð með stórhríð er í Svínadal. Snjóþekja er á Holtavörðuheiðinni.

Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum leiðum. Ófært er um Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði Hálfdán, Mikladal, Klettsháls og Hjallaháls. Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiðinni.

Nokkuð er um Snjókomu, snjóþekju og hálku Norðanlands. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð með skafrenningi á Þverárfjalli. Varmahlíðarmegin við Vatnsskarð er krapafærð.

Á Austurlandi er víða hálka og éljagangur. Snjóþekja og éljagangur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Biskupshálsi. Ófært er á Hófaskarði.

Vegurinn um Hvalnesskriður / Þvottárskriður er lokaður vegna aurskriðu. Unnið er að opnun, ekki er vitað hvenær muni ná að opna. Greiðfært er með suðausturströndinni og er eitthvað um éljagang.

Vegurinn niður að Dyrhólaey (vegnúmer 218) er ekki fær bílum og því lokaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×