Íslenski boltinn

Bjarni: Hefði átt að hlusta á David Moyes

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarni Þór Viðarsson mun spila í Pepsi-deild karla í sumar. Hann er genginn í raðir uppeldisfélagsins FH og Bjarni segir að það komi ekkert annað til greina en Íslandsmeistaratitill í sumar.

Guðjón Guðmundsson hitti Bjarna í Kaplakrika á dögunum, en innslagið birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Bjarni viðurkennir að hann hafi átt að hlusta á David Moyes, þáverandi stjóra Everton, og vera áfram hjá Bítlaborgarliðinu, en Bjarni gekk í raðir Everton 16 ára gamall:

„Ég viðurkenni það alveg að ég hefði átt að hlusta á Moyes (fyrrum stjóri Everton) og vera áfram. Ég hefði átt að bíða rólegur," sagði Bjarni og tók Leon Osman, miðjumann Everton, sem dæmi.

„Það sýndi sig eins og með menn eins og Leon Osman. Hann byrjaði ekki að spila með aðalliðinu fyrr en hann var 23 eða 24 ára gamall. Ég gæti verið að hugsa um þetta allan daginn, en svona var þetta."

Frá Everton fór Bjarni til Twente árið 2008 og þaðan til Roeselare. Einnig lék hann með Mechelen og nú síðast með Silkeborg áður en hann ákvað að koma heim.

„Ég tók þá ákvörðun að fara til Hollands þar sem ákveðin loforð voru í gangi, en það ekki gekk eftir. Þetta er búið að vera léttur Evróputúr og verið mjög gaman."

„Þetta hefur gengið upp og niður, en besti tíminn var á Englandi og í Belgíu til að byrja með," sagði Bjarni. Hann segir það sé ekki skref niður á við að ganga í raðir Fimleikafélagsins.

„Ég tel það ekki. Fjárhagslega kannski, en ekki knattspyrnulega séð. Maður þarf að hafa gaman að því sem maður er að gera og það var ástæðan afhverju ég kom í FH."

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt og leiðinlegt í Silkeborg. Ég þurfti að komast á einhvern þar sem mér og fjölskyldunni líður vel og þá var FH eini kosturinn í stöðunni."

„Það kemur ekkert annað til greina en að vera meistarar og annað myndi bara vera vonbrigði," sagði þessi geðþekki piltur að lokum.

Innslag Gaupa má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×