Innlent

Fjúkandi þakplötur í Hafnarfirði

Sveinn Arnarsson skrifar
Bálhvasst er í Hafnarfirðinum og björgunarsveitarmenn eiga í miklum erfiðleikum með að fóta sig.
Bálhvasst er í Hafnarfirðinum og björgunarsveitarmenn eiga í miklum erfiðleikum með að fóta sig. Mynd/Eiríkur Jónsson
Þakplötur eru farnar að fjúka af raðhúsalengju í Smyrlahrauni í Hafnarfirði. Björgunarsveitarmenn frá Fiskakletti í Hafnarfirði eru komnir upp á þak raðhússins og reyna nú í hvassviðrinu að fergja þakplötur svo þau haldist á sínum stað. Vindstyrkur á að ná hámarki nú fyrir hádegi og verður hvasst langt fram eftir degi.

Aðstæður í Hafnarfirði eru nokkuð erfiðar, mjög hvasst er og erfitt að fóta sig. Samkvæmt björgunarsveit Hafnarfjarðar hefur verið yfirdrifið nóg að gera hjá björgunarsveitum á suðvesturlandi við að sinna alls kyns útköllum. Svæðisstjórn úthlutar verkefnum til björgunarsveita á svæðinu og eru fjöldinn allur af sjálfboðaliðum að störfum í veðurofsanum.

Á myndunum sem Eiríkur Jónsson, íbúi í Hafnarfirði, tók í morgun sést að fjöldinn allur af þakplötum hefur losnað upp og vinna nú björgunarsveitarmenn að því að lágmarka tjónið á híbýlum fólks.

Upp á síðkastið hefur umræða skapast um hvort Björgunarsveitir ættu að leggja líf sjálfboða sinna í hættu með því að bjarga verðmætum einstaklinga.

Vindstyrkur á að ná hámarki á SV-horni landsins nú fyrir hádegi og verður vindur mikill fram eftir degi en fer svo að lægja með kvöldinu. Þó mun vindur aukast nokkuð norðanlands þegar líða tekur á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×