Innlent

Landsnet í viðbragðsstöðu vegna stormsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/SKÓ
Aukinn viðbúnaður er í stjórnstöð Landsnets vegna óveðursins sem gengur yfir landið í dag og á morgun. Starfsfólk Landsnets á Akureyri, Brennimel í Hvalfirði og á Suðurlandi er einnig í viðbragðsstöðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Stormur (meðalvindur yfir 20 m/s) hefur gengið yfir landið sunnan- og vestanvert síðdegis í dag og fer yfir austanvert landið í kvöld. Á morgun er gert ráð fyrir roki eða ofsaveðri (meðalvindur 24-30 m/s) fram eftir degi. Aukin hætta er á samslætti eða öðrum vindtruflunum í flutningskerfinu af þessum sökum, einkum vestanlands og á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegna mikilla leysinga getur skapast hætta á snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum víða um land.

Viðbragðsáætlanir Landsnets eru viðamiklar vegna ástands flutningskerfisins. Að suðvesturhluta landsins undanskildum, er takmörkunum flutningskerfið takmörkunum háð og tenging milli landsvæða um byggðalínuna mjög veik.

Hægt er að fylgjast með tilkynningum stjórnstöðvar á heimasíðu Landsnets og einnig á twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×