Innlent

Veðrið nær hámarki á milli þrjú og fimm í dag

Birgir Olgeirsson skrifar
Klæða sig vel og fara varlega eru fyrirmæli helgarinnar.
Klæða sig vel og fara varlega eru fyrirmæli helgarinnar. Vísir/GVA
Það hefur vart farið framhjá mörgum að Veðurstofa Íslands spáir stormi í dag og á morgun. Á suðvesturhorni landsins mun byrja að hvessa hægt og bítandi í dag og mun veðrið ná hámarki þar á milli klukkan þrjú og fimm í dag að sögn veðurfræðingsins Theodórs Freys Hervarssonar.

Meðalvindhraði verður á bilinu 23 - 25 metrar á sekúndu en hviður munu ná 40 - 45 metrum á sekúndu og á það við staði á borð við Hafnarfjall, Kjalarnes, sumstaðar á Snæfellsnesi og á heiðum.

Um klukkan sex í dag mun vindur ganga niður suðvestanlands en skilin fara þá yfir landið og hvessir á Austurlandi.

Spáin fyrir morgundaginn er öllu verri. „En sem betur fer virðist ekki vera sami ofsinn í þessu núna og var í spánum í gær,“ segir Theodór. Undir morgun mun hvessa aftur suðvestanlands gengur á með ofsaveður á suðvesturhorninu og norðanlands frá klukkan níu á morgun. Veðrið mun ganga niður um hádegi suðvestanlands en aðeins seinna fyrir norðan.

„Ég myndi segja að annað kvöld er þetta orðið víðast hvar í góðu lagi, allavega enginn ofsi,“ segir Theodór.

Fylgstu með á veðurvef Vísis.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×