Handbolti

Björgvin er ekki fótbrotinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Þór Hólmgeirsson.
Björgvin Þór Hólmgeirsson. VÍSIR/ANDRI MARINÓ
Björgvin Þór Hólmgeirsson, markahæsti leikmaður Olís-deildar karla í handbolta, fékk góða fréttir eftir myndatöku í dag en óttast var að hann væri fótbrotinn.

Björgvin missti af leik ÍR og ÍBV í gær en er bjartsýnn að vera komin aftur á ferðina fyrir úrslitakeppnina.

„Ég fór í aðra myndatöku í dag og þar kom í ljós að ég væri ekki brotinn," sagði Björgvin þegar Vísir heyrði í honum í kvöld.

„Ég er að fara aftur til læknis á morgun og þetta er vonandi bara tvær vikur eða eitthvað. Þetta er ekki neitt," segir Björgvin aðspurður um framhaldið.

Hann viðurkennir að hafa óttast að þetta væri meira og jafnvel brot.

„Miðað við mína fjölskyldusögu hefði ekki komið mikið á óvart að ég væri fótbrotinn," segir Björgvin Þór en eldri bróðir hans Einar Hólmgeirsson var mjög óheppinn með meiðsli á sínum ferli.

„Ég vona að þetta sé allt í góðu. Ég ætla að vera með í úrslitakeppninni og þess vegna tóku við enga áhættu í leiknum í Eyjum í gær," segir Björgvin Þór.

„Ég verð að ná einhverjum leikjum fyrir úrslitakeppni," sagði Björgvin Þór Hólmgeirsson sem er markahæsti leikmaður deildarinnar en hann er ekki mikið að huga um markakóngstitilinn núna.

„Svo lengi sem við komust í úrslitakeppnina þá er mér alveg sama. Það er það sem skiptir öllu máli," segir Björgvin.

Björgvin fann fyrst fyrir ristinni eftir æfingu í vikunni fyrir bikarúrslitahelgina. „Þetta var orðið gott en svo fór hún aftur i HK-leiknum," segir Björgvin.

Björgvin Þór Hólmgeirsson hefur skorað 168 mörk í 21 leik eða 8,0 mörk að meðaltali í leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×