Erlent

Franskar íþróttastjörnur létust í þyrluslysi í Argentínu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alexis Vastine, Camille Muffat og Florence Arthaud.
Alexis Vastine, Camille Muffat og Florence Arthaud. Vísir/Getty/AP/Getty
Þrjár franskar íþróttastjörnur, Camille Muffat, Alexis Vastine og Florence Arthaud, eru á meðal tíu manna sem létust í þyrluslysi í Argentínu í gærkvöldi.

Camille Muffat var 25 ára gömul sundkona og vann þrenn verðlaun á Ólympíuleikunum í London árið 2012, þar á meðal ein gullverðlaun. Hún hætti að keppa í sundi á seinasta ári. Alexis Vestine var 28 ára gamall en hann keppti í hnefaleikum og vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Beijing árið 2008. Þá lést einnig siglingakonan Florene Arthaud en hún var 57 ára.

Auk íþróttamannanna þriggja létust fimm Frakkar og tveir argentínskir flugmenn. Slysið varð með þeim hætti að tvær þyrlur skullu saman og hröpuðu til jarðar þannig að allir um borð létust. Ekki er vitað hvers vegna þyrlurnar skullu saman en veðurskilyrði voru með besta móti, að því er fram kemur í frétt BBC.

Verið var að taka upp vinsælan raunveruleikaþátt, Dropped, sem gengur út á að skilja frægt fólk eftir úti í óbyggðum og láta það bjarga sér til baka af eigin rammleik.

Francois Hollande Frakklandsforseti sendi aðstandendum þeirra sem létust sínar samúðarkveðjur í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×