Viðskipti innlent

Þrjú tilboð bárust í Sparisjóð Vestmannaeyja

Höskuldur Kári Schram skrifar
Landsbankinn, Arionbanki og hópur innlendra og erlendra fjárfesta hafa hver fyrir sig lýst yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja um kaup á sjóðnum. Stjórnin óskaði eftir tilboðum eftir að í ljós kom að sjóðurinn þyrfti að bæta eiginfjárstöðu sína um rúman milljarð.

Sparisjóðurinn hefur verið á einhvers konar skilorði hjá Fjármálaeftirlitinu eftir að í ljós kom að útlánasafn hans var ekki eins gott og áður var talið.

Sjóðurinn fékk frest til klukkan fjögur í dag til að bregðast við þessum aðstæðum og skila greinargerð með tillögum til úrbóta til FME.

Stjórn sjóðsins óskaði meðal annars eftir kauptilboði frá Landsbankanum sem lýsti í dag yfir áhuga á að hefja viðræður þessa efnis. Þá bárust einnig tvö önnur tilboð, eitt frá Arionbanka og annað frá hópi innlendra og erlendra fjárfesta.

Fjárfestarnir buðust til að koma með pening inn í sjóðinn og breyta honum í hlutafélag en Þorbjörg Inga Jónsdóttir formaður stjórnar Sparisjóðs Vestmannaeyja segir að FME hafi hafnað þeirri leið.

„Þá förum við inn í þennan valkost tvö að semja við Landsbankann af því við töldum það tilboð hagstæðara fyrir stofnfjárhafa,“ segir Þorbjörg. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×