Erlent

Höfuðvígi Boko Haram hertekið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Her Nígeríu segist hafa tekið bæinn Gwoza úr höndum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. Bærinn er sagður vera höfuðvígi samtakanna. Herinn segir að nú sé búið að reka vígamenn samtakanna frá nærri því öllum þeim svæðum sem þeir hafi tekið með valdi í norðurhluta-Nígeríu.

Einhverjir vígamannanna úr bænum eru sagðir hafa flúið að í átt að landamærum.

Tilkynning hersins var birt í dag, samkvæmt BBC, en á morgun ganga íbúar Nígeríu til forsetakosninga í landinu. Kosningunum hafði áður verið frestað í sex vikur vegna sóknarinnar gegn Boko Haram.

Barátta Boko Haram fyrir sjálfstæðu ríki í Nígeríu hófst árið 2009, en síðan þá hafa þúsundir látið lífið í átökum og voðaverkum samtakanna. Fyrr á þessu ári sendu nágrannar Nígeríu hermenn til hjálpar og hafa unnist stórir sigrar gegn samtökunum síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×