Viðskipti innlent

Atvinnuleysi eykst milli mánaða

ingvar haraldsson skrifar
Atvinnuleysi eykst milli mánaða og var 4,6 prósent í febrúar.
Atvinnuleysi eykst milli mánaða og var 4,6 prósent í febrúar. vísir/daníel
Atvinnuleysi var 4,6 prósent í febrúar samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Atvinnuleysi eykst því milli mánaða en það var 4,4 prósent í janúar.

Þeim sem taka þátt á vinnumarkaði hefur fjölgað um 2 prósentustig eða 6.900 manns á milli febrúarmánaða áranna 2014 og 2015. 188.100 voru á vinnumarkaði í febrúar á þessu ári, þar af 179.500 starfandi og 8.600 án atvinnu.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi eykst einnig

Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 192.100 í febrúar 2015 sem jafngildir 82,6% atvinnuþátttöku, sem er 1,2 prósentustigum hærri en hún var í janúar. Fjöldi atvinnulausra í febrúar var samkvæmt árstíðaleiðréttingu 9.100 sem er fjölgun um 1.300 manns frá því í janúar segir í frétt Hagstofunnar.

Hlutfall atvinnulausra jókst því og var 4,7% í febrúar en var 4,1% í janúar. Leiðréttur fjöldi starfandi fólks í febrúar 2015 var 183.000, eða 78,7%, sem eru 1.100 fleiri en voru starfandi í janúar. Hlutfall starfandi jókst um 0,7 prósentustig og atvinnuleysi jókst um 0,6 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×