Íslenski boltinn

Elvar Páll með tvennu í fyrsta leiknum fyrir Leikni | ÍA og Valur á góðu róli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Páll byrjar vel í Leiknisbúningnum.
Elvar Páll byrjar vel í Leiknisbúningnum. mynd/leiknir.com
Fimm leikir fóru fram í A-deild Lengjubikarsins í fótbolta í dag.

Skagamenn svöruðu fyrir tapið gegn Val í síðustu umferð með 2-1 sigri á Keflavík í Akraneshöllinni.

Öll mörkin komu á fyrstu 12 mínútum leiksins. Arsenij Buinickj kom ÍA yfir á 6. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir félagið. Leonard Sigurðsson jafnaði metin á 11. mínútu en aðeins mínútu síðar kom Garðar Gunnlaugsson Skagamönnum aftur yfir og þar við sat.

ÍA er í toppsæti riðils 3 með 15 stig, fjórum meira en Valur sem vann 0-2 sigur á Fjarðabyggð fyrir austan. Orri Sigurður Ómarsson og Ragnar Þór Gunnarsson skoruðu mörk Valsmanna í seinni hálfleik.

Í sama riðli vann Grindavík stórsigur á Þór í Boganum, 2-6.

Staðan var 0-4 í hálfleik en þeir Óli Baldur Bjarnason, Magnús Björgvinsson og Alex Freyr Hilmarsson skoruðu mörk Grindvíkinga, auk þess sem Þórsarar skoruðu eitt sjálfsmark.

Scott Ramsey og Ivan Jugovic bættu svo við mörkum fyrir Grindavík í seinni hálfleik en Jóhann Helgi Hannesson (víti) og Kristinn Þór Björnsson skoruðu mörk Þórs.

Grindavík er með sex stig í 4. sæti riðilsins en Þór vermir botnsæti hans með aðeins þrjú stig.

Í riðli 1 vann Víkingur Ólafsvík öruggan 0-4 sigur á Bí/Bolungarvík í Akraneshöllinni. Fannar Hilmarsson, Kristinn Magnús Pétursson, Kristófer Eggertsson og Alfreð Már Hjaltalín skoruðu mörk Víkinga sem unnu þarna sinn fyrsta sigur í Lengjubikarnum í ár. Ólsarar eru í 7. sæti riðilsins með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Djúpmenn eru í 8. og neðsta sæti riðilsins, án stiga og með markatöluna 0-22.

Gott gengi Leiknis R. í Lengjubikarnum heldur áfram en Breiðhyltingar unnu 2-1 sigur á Selfossi í riðli 2. Leikið var í Egilshöll.

Elvar Páll Sigurðsson skoraði bæði mörk Leiknis í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Arnar Logi Sveinsson skoraði mark Selfoss sem er í 3. sæti riðilsins með sjö stig.

Leiknismenn eru hins vegar í 1. sæti riðilsins með 15 stig eftir sex leiki.

Úrslitin í dag:

ÍA 2-1 Keflavík

Fjarðabyggð 0-2 Valur

Þór 2-6 Grindavík

BÍ/Bolungarvík 0-4 Víkingur Ó.

Leiknir R. 2-1 Selfoss


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×