Lífið

Eurovísir: Var sendur einn í Eurovision

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Logi Bergmann fréttaþulur hefur fengið eitt tækifæri til að lýsa Eurovision en fáir muna eftir því. Ísland átti nefnilega engan fulltrúa í Eistlandi árið 2002 þegar Logi var fenginn til að lýsa. Frá þessu sagði hann í nýjasta þætti Eurovísis.

„Það var mjög sérkennilegt. Þetta var ár sem við vorum ekki með,“ segir hann. „Ég var bara sendur út. Það þurfti einhver að lýsa og það þurfti einhver að vera fulltrúi Ríkisútvarpsins. Þannig ég var bara einn.“

Logi segir að Eurovision áhuginn hafi kviknað þegar hann var úti í Eistlandi. „Ég kom bara heim með bilaðan áhuga á Eurovision og reyndar áfengiseitrun,“ segir hann og hlær.

Hann lærði samt mikið á þessari ferð, meðal annars hverjum er mikilvægt að „Þú þarft að vera með kynnana góða. Einu blaðamennirnir sem skipta máli eru kynnarnir. Þeir sem tala fyrir stöðvarnar,“ segir hann.

„Þú þarft að vera með þá góða því það er svo mikilvægt þegar þeir segja „já þetta er skemmtilegt fólk“ og segja eitthvað jákvætt frekar en „þessi eru búnir að vera með stjörnustæla alla vikuna“,“ segir hann.

Logi segist hafa fundið fyrir veljvilja frá keppendum. „Það eru alveg tólf stig sem geta komið frá Íslandi. Menn reyna að sýna sparihliðarnar á sér,“ segir hann.

Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.