Erlent

Kom manni til bjargar en varð sjálfur fyrir lest og dó

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slysið var í neðanjarðarlestakerfi Lundúna. Myndin tengist fréttinni að öðru leyti ekki.
Slysið var í neðanjarðarlestakerfi Lundúna. Myndin tengist fréttinni að öðru leyti ekki. Vísir/Getty
35 ára karlmaður varð fyrir lest og lét lífið eftir að hafa reynt að koma manni, sem féll á teinanna, til aðstoðar. Atvikið varð upp úr miðnætti aðfaranótt sunnudags á Old Street Station í London.

Hinn maðurinn, 32 ára karlmaður frá Manchester sem talið er að hafi óvart fallið á teinanna, er á sjúkrahúsi og er ástand hans alvarlegt. Lögregluyfirvöld í Bretlandi rannsaka málið sem slys.

BBC hefur eftir ónafngreindu vitni, sem var að bíða eftir lest, að hann hafi staðið skammt frá þegar lestinni var ekið á mennina tvo.

„Annar þeirra var að hopppa nærri línunni og rann út á teinanna. Áður en það gerðist hafði ég miklar áhyggjur af því að þetta gæti gerst,“ segir maðurinn.

Virtust vera vinir eða kunningjar

Hann hafi verið sem frosinn þegar lestin kom sekúndum síðar. Vitnið segir að sér hafi virst sem mennirnir tveir hafi þekkst.

„Maðurinn sem reyndi að bjarga hinum var á brúninni að reyna að teygja sig til mannsins en það var um seinan. Lestin kom 20 sekúndum síðar.“

Annað vitni lýsir því hvernig hinn látni hafi kastast aftur á pallana þegar lestin skall á honum.

„Fólk nálgaðist manninn og það voru öskur. Svo til allt kvenfólk var grátandi og ég stóð þarna með höfuðið í höndum mér.“

Mennirnir tveir voru fluttir á slysadeild þar sem hinn 35 ára gamli lést af sárum sínum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×