Lífið

Eurovision-ævintýrið hafið: María Ólafs í Vínarborg

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
María Ólafsdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision, er stödd í Vínarborg þar sem hún er stödd við tökur á hinu svokallaða póstkorti. Fréttastofan náði tali af henni þar sem hún beið eftir að fara af stað í tökur.



„Við erum bara að bíða eftir að vera sótt. Svo er bara dagskrá. Ég veit ekkert hvað ég er að gera, þetta er einhver svona óvissuferða fyrir mig en Ásgeir veit hvað ég er að fara að gera,“ segir hún hress í bragði. Með henni í för er Ásgeir Orri Ásgeirsson, meðlimur lagasmíðateymisins Stop WaitGo sem samdi lag Maríu.



„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er búið að vera hrikalega skemmtilegt hingað til og Vín er ótrúlega flott borg og ég hlakka bar til að koma hingað aftur eftir mánuð,“ segir hún. María segist ekki hafa skoðað aðstæður enn þá.



„Ekki enn þá. Við komum bara seint í gærkvöldi og fórum beint að sofa. Við erum bara að koma okkur fram úr núna. Ég veit ekki, kannski fáum við að gera það í dag eða á morgun; en ég efast samt um það,“ segir María sem segir að það sé full dagskrá fram að keppni.



María syngur lagið Unbroken á öðru undanúrslitakvöldinu sem fram fer í Vínarborg þann 21. maí næstkomandi. Hún verður tólfta á svið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.