Innlent

Um þrjú þúsund í verkfall á morgun

Allsherjarverkfall Bandalags háskólamanna skellur á á morgun þegar um þrjú þúsund félagsmenn leggja niður störf í fjórar klukkustundir. Samingafundi BHM og ríkisins lauk rétt fyrir klukkan fjögur í dag án þess að samkomulag næðist. 

Deiluaðilar gengu til fundar klukkan hálf tvö í dag en Páll Halldórsson, formaður BHM, vonaðist til að samninganefnd ríkisins myndi þar koma með nýtt útspil í deilunni. Svo var ekki. Páll segir að ríkið taki deilunni ekki nógu alvarlega. Nóg sé til í verkfallsjóðum félaganna og samninganefndin standi föst á sínu, að menntun verði metin til launa. 

Alls lögðu 566 félagsmenn BHM niður störf í gær og dróst starfsemi Landspítalans saman um hátt í helming í gær og í dag vegna verkfalls félagsmanna á sjúkrastofnunum í landinu. Sömuleiðis varð veruleg röskun á starfssemi embættis sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu vegna verkfalls lögmanna þar. Allsherjarverkfallið tekur til allra félagsmanna á morgun, en á meðal þeirra eru félagar í Sálfræðingafélagi Íslands, Iðjuþjálfafélagi Íslands og Þroskaþjálfafélagi Íslands. Þó er um mismunandi aðgerðir að ræða, allt frá því að vera verkfall part úr degi yfir í ótímabundin allsherjarverkföll.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×