Enski boltinn

Coutinho skaut Liverpool á Wembley | Sjáið sigurmark Coutinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho fagnar sigurmarki sínu.
Philippe Coutinho fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho tryggði Liverpool 1-0 sigur á b-deildarliðinu Blackburn Rovers í kvöld í endurteknum leik liðanna í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Fyrri leiknum endaði með jafntefli og eina markið í kvöld kom þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og liðin voru búin að spila í meira en 160 mínútur án þess að skora.

Sigurinn tryggði Liverpool sæti í undanúrslitaleiknum á Wembley sem verður á móti Aston Villa 19. apríl næstkomandi. Daginn áður mætast Arsenal og Reading í hinum undanúrslitaleiknum.

Liverpool var 71 prósent með boltann í fyrri hálfleiknum en tókst þó ekki að skapa sér alvöru dauðafæri þótt að liðið hafi reynt tíu skot í hálfleiknum.

Það leit allt út fyrir að Blackburn-liðið ætlaði bara að halda út og treysta á vítakeppni en Blackburn-menn bitu frá sér í upphafi seinni hálfleiksins.

Simon Mignolet var í sviðsljósinu á upphafsmínútum seinni hálfleiksins en hann varði fyrst langskot Tom Cairney í horn og svo í framhaldinu þrumuskalla Ben Marshall.

Mignolet varði skalla Ben Marshall í stöngina og út og þar höfðu Liverpool-menn heldur betur heppnina með sér.

Philippe Coutinho skoraði síðan markið mikilvæga á 71. mínútu eftir þríhyrningsspil við Jordan Henderson. Coutinho slapp inn í teiginn og skoraði með þrumuskoti í stöngina og inn.

Liverpool slapp með skrekkinn í uppbótartíma þegar Simon Mignolet varði vel frá Simon Eastwood, markverði Blackburn, sem var kominn fram í hornspyrnu.

Philippe Coutinho kemur Liverpool í 1-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×