Lífið

RÚV hafnaði einu lagi frá StopWaitGo

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Einu lagi frá lagahöfundarteyminu StopWaitGo var hafnað í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Það var lagið sem teymið taldi næsta víst að myndi vinna keppnina. Þetta upplýsir Ásgeir Orri Ásgeirsson í nýjasta þætti Eurovísis.

„Við sendum inn þrjú lög. Lagið sem komst ekki inn var lagið sem við vorum viss um að myndi bara vinna ef það myndi komast inn,” segir hann. „Nú er ég að segja þetta af hreinskilni.”

Ásgeir Orri vildi ekki gefa upp hver söng það lag en María Ólafsdóttir söngkona sagðist ekki hafa sungið lagið. „Nei það var önnur hugmynd sem ég mun ekki gefa upp hér. Það er eiginlega alltof góð hugmynd,“ segir hann. „Við erum alla vega mjög ánægð með það lag.“

Í þættinum upplýsir Ásgeir Orri einnig að fjórða lagið hafi verið samið en að það hafi ekki verið sent inn. Hann segist ekki vita hvort að von sé á lagi í keppnina á næsta ári.

Spurning er hvort eitthvað af lögunum rati á EP plötu sem StopWaitGo og María ætla að senda frá sér fyrir lok mánaðarins.

„Við erum að vinna að nýju efni með henni. Við eru komin eitt eða tvö lög til viðbótar sem við hlökkum mjög til að ráðast í og gefa út,“ segir Ásgeir. „Við stefnum að því að gefa út svona EP-plötu með henni fyrir keppni, í lok apríl.“

Eurovísir er vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir. Hægt er að skrá sig í áskrift að þáttunum í Podcast fyrir iPhone og iPad og í iTunes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.