Enski boltinn

Kompany: Góður tími til að mæta Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City.
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City. Vísir/Getty
Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, fagnar því að næsti leikur liðsins sé á móti nágrönnunum í Manchester United en liðin hafa verið á leiðinni í sitthvora áttina á undanförnum vikum.

Manchester City hefur tapað þremur af síðustu fimm leikjum sínum á sama tíma og Manchester United liðið hefur unnið fimm leiki í röð. Þetta slæma gengi City-liðsins þýðir að liðið hefur dottið úr öðru sæti niður í það fjórða.

„Þetta er góður tímapunktur til að fara inn í derby-leik. Þar er komin fullkomin staða fyrir okkur að vinna okkur aftur inn þá stöðu sem við vorum í," sagði Vincent Kompany um Manchester-slaginn sem fer fram á sunnudaginn.

„Derby-leikur er alltaf derby-leikur og í slíkum leikjum skiptir ekki máli hvar liðin eru í töflunni," sagði Vincent Kompany en Manchester City tapaði 2-1 fyrir Crystal Palace í gærkvöldi.

„Ég er bara að hugsa um það að koma okkar liði aftur í okkar besta form. Við verðum að bæta okkar leik því við höfum lært af því síðustu ár að það að enda tímabil vel getur haft góð áhrif á gengið á næsta tímabili á eftir," sagði Kompany sem notaði tækifærið og skaut á liðsfélaga sína.

„Knattspyrnustjórinn velur það lið sem hann vill sjá á vellinum en það eru leikmennirnir sjálfir sem spila og það er þeirra stolt sem er að veði. Ekki allir leikmennirnir í okkar liði virðast hafa ástríðuna til að fara út og vinna þessa leiki," sagði Kompany.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×