Enski boltinn

Neville: City ekki nógu andlega sterkt til að vinna titilinn tvö ár í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
City-menn ganga súrir af velli í gærkvöldi.
City-menn ganga súrir af velli í gærkvöldi. vísir/getty
Englandsmeistarar Manchester City eru nánast úr leik í baráttunni um titilinn á þessari leiktíð eftir tap gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi, 2-1.

City er nú níu stigum á eftir Chelsea sem á leik til góða og svo virðist sem lærisveinar Pellegrini verji ekki titilinn sem þeir unnu í fyrra.

Sjá einnig: Enn fatast City flugið í titilbaráttunni | Sjáðu mörkin

Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, segir vandamálið andlegs eðlis hjá Manchester City, en liðinu mistókst einnig að verja fyrsta úrvalsdeildartitilinn sem það vann árið 2012.

„Þetta er andlegt vandamál hjá City, það er engin spurning. Þetta lið getur ekki viðhaldið árangri. Það er skelfilegt að svona hlutir verði liðum að falli,“ sagði Neville eftir leikinn í gær.

„Þegar lið vinna meistaratitla verða þau að geta komið aftur hungruð í meira en það gerir City ekki. Það kemst á topp fjallsins en dettur svo niður.“

„City gat ekki brotið sterka og ólseiga vörn Palace á bak aftur. Þetta er eitthvað sem Chelsea lenti oft í á síðustu leiktíð og vann þess vegna ekki titilinn.“

„Þetta kostaði City sigurinn í kvöld [gærkvöldi]. Það gerði bara ekki nóg til að brjóta Palace niður. Mér finnst City ekki vera með nógu mikil gæði á köntunum,“ sagði Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×