Innlent

Ábyrgðarleysi að boða ekki fund í deilunni fyrr

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Páll Halldórsson, formaður BHM, segir það fádæma ábyrgðarleysi að boða ekki til fundar í kjaradeilu ríkisins og félagsins yfir páskana, þrátt fyrir yfirvofandi verkfall.

Viðsemjendur BHM hjá ríkinu hafi frekar viljað verja dögunum fyrir páskahelgina í dómsal en að reyna að afstýra neyðarástandi.

Félagsdómur úrskurðaði að aðgerðir fimm aðildarfélaga BHM sem hefja eiga verkfall á morgun, væru lögmætar.

Samninganefnd ríkisins lét reyna á lögmæti verkfallsaðgerða fimm félaga - Ljósmæðrafélags Íslands, Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Stéttarfélags lögfræðinga, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla og næringarsviði og Félags íslenskra náttúrufræðinga.

Verkfallið mun hafa víðtækar afleiðingar að óbreyttu en geislafræðingar og lífeindafræðingar hefja einnig verkfallsaðgerðir á morgun en ekki var deilt um lögmæti þeirra aðgerða.

Fundur var síðasta miðvikudag en enginn fundur er boðaður næsta miðvikudag, eftir að verkfall er hafið. Páll segir að það sé fyrir neðan hellur að lægstu laun félagsmanna nái ekki 300 þúsund þótt gengið verði að því sem samninganefnd ríkisins sé tilbúin að greiða. Það sé fyrst og fremst verið að gera þá kröfu, að menntun sé metin til launa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×