Enski boltinn

Mata: Sjö úrslitaleikir framundan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mata hefur spilað vel að undanförnu.
Mata hefur spilað vel að undanförnu. vísir/getty
Juan Mata, leikmaður Manchester United, segir að leikirnir sjö sem liðið á eftir að spila á tímabilinu séu allt úrslitaleikir.

United bar sigurorð af Aston Villa um helgina, 3-1, og hefur nú unnið fimm leiki í röð.

„Tímabilið hefur liðið svo hratt - mér finnst svo stutt síðan undirbúningstímabilið var. En við eigum nokkra úrslitaleiki eftir áður en tímabilið er á enda,“ sagði Mata í samtali við MUTV.

Spánverjinn hefur verið í byrjunarliði United í síðustu þremur leikjum og staðið sig með prýði. Hann skoraði t.a.m. bæði mörkin í sigrinum á Liverpool og lagði upp þriðja mark United gegn Aston Villa um helgina.

„Við viljum enda eins og ofarlega og nokkur kostur og ef við spilum eins og við höfum gert í undanförnum leikjum eigum við eftir að vinna marga sigra,“ sagði Mata ennfremur en United er langt komið með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Lærisveinar Louis van Gaal eiga einnig góða möguleika á að hirða 2. sætið í úrvalsdeildinni sem gefur þátttökurétt í riðlakeppninni Meistaradeildarinnar.

„Við eigum eftir leiki gegn Chelsea, Manchester City og Arsenal og verðum að vera upp á okkar besta til að vinna þá.

„Hver einasti leikur hér eftir er úrslitaleikur og við verðum að einbeita okkur að hverjum leik fyrir sig,“ sagði Mata að lokum en United mætir nágrönnum sínum í City um næstu helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×