Innlent

Segir það ábyrgðarleysi að boða ekki til fundar yfir páskana

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Páll Halldórsson, formaður BHM, segir fádæma ábyrgðarleysi að boða ekki til fundar í kjaradeilu ríkisins og félagsins yfir páskana, þrátt fyrir yfirvofandi verkfall. Verkfall geislafræðinga og lífeindafræðinga hefst á morgun og lamar hluta af starfsemi spítalanna. Deilt er um verkfallsboðun fimm annarra félaga en félagsdómur úrskurðar um lögmæti þeirra klukkan rúmlega tvö í dag.

„Algjört ábyrgðarleysi“

Félögin fimm sem um ræðir eru Ljósmæðrafélag Íslands, Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, Stéttarfélag lögfræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði og Félag íslenskra náttúrufræðinga. Verkfallið mun hafa víðtækar afleiðingar að óbreyttu en það nær til þrjú þúsund félaga BHM.

„Það myndi fyrst og fremst hafa áhrif inni á spítalanum og einnig hjá sýslumönnum inni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Páll. „Þau áhrif kæmu fyrst í ljós, síðan eru aðrir hlutir sem koma síðar. En menn munu verða varir við þetta.“

Páll segir að það sé í raun með ólíkindum að ekki hafi verið reynt að nýta tímann um páskana til að leysa úr málunum.

„Það hafa engir fundir verið núna yfir páskana og við vorum tilbúin til þess að vera með fundi,“ segir hann. „En fyrsti fundur eftir að verkfall skellur á verður á miðvikudeginum. Mér finnst þetta vera algjört ábyrgðarleysi.“

Deilan leysist ekki með dómunum

Verkfall geislafræðinga og lífeindafræðinga hefst á morgun og nær til 323 starfsmanna Landspítalans. Ekki er deilt um lögmæti þeirra aðgerða.

„Þannig að það var öllum ljóst, hvernig sem þessi mál fara fyrir félagsdómi, að það myndi hefjast verkfall á Landspítalanum á morgun.“

Ef félagsdómur úrskurðar verkfallsaðgerðirnar ólöglegar nú á eftir, verður hafist handa við að undirbúa verkfall að nýju.

„Þetta er auðvitað ferli,“ segir Páll. „Það þarf að boða með fimmtán daga fyrirvara og atkvæðagreiðslur taka tíma og svona. Þannig að þetta er töf en í raun og veru, hvernig sem þessir dómar fara, þá leysist deilan ekki með þeim. Ef ríkið sýnir engan vilja til sátta, þá auðvitað finna menn leiðir til þess að knýja á þeim.“


Tengdar fréttir

BHM heldur verkfallsboðun til streitu

BHM telur atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hafa verið löglega. Formenn Starfsgreinasambandsins funda um lögmæti sinna aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×