Handbolti

Marija Gedroit ekki með í úrslitakeppninni | Áfall fyrir Hauka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marija Gedroit skoraði 144 mörk í Olís-deildinni í vetur.
Marija Gedroit skoraði 144 mörk í Olís-deildinni í vetur. vísir/vilhelm
Haukar verða án sinnar aðalskyttu, Mariju Gedroit, í úrslitakeppninni sem hefst á morgun. Þetta staðfesti Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi í kvöld

Marija meiddist snemma í leiknum gegn Fram í lokaumferð deildarinnar en að sögn Halldórs þykir líklegast að hún hafi slitið krossbönd. Marija fer í nánari skoðun eftir hátíðarnar en ljóst er að hún leikur ekkert með Haukum í úrslitakeppninni.

Þetta er mikið áfall fyrir Hauka enda er Marija ein öflugasta skytta landsins og var þriðji markahæsti leikmaður í Olís-deildarinnar í vetur með 144 mörk.

Þetta er ekki eina skarðið hefur verið höggvið í lið Hauka að undanförnu en báðar örvhentu skyttur liðsins, Viktoría Valdimarsdóttir og Kolbrún Gígja Einarsdóttir, eru frá vegna meiðsla og verða ekki meira með á tímabilinu.

Haukar enduðu í 5. sæti deildarinnar en liðið var eitt það heitasta í seinni hluta mótsins.

Haukar mæta ÍBV í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Fyrsti leikur liðanna er á morgun klukkan 13:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×