Enski boltinn

Zaha: Fannst ég vera einkis virði hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zaha hefur skorað þrjú mörk í 27 leikjum síðan hann kom aftur til Crystal Palace síðasta haust.
Zaha hefur skorað þrjú mörk í 27 leikjum síðan hann kom aftur til Crystal Palace síðasta haust. vísir/getty
Wilfried Zaha segir að honum hafi fundist hann vera einkis virði á meðan hann var leikmaður Manchester United.

United pungaði út 10 milljónum punda fyrir Zaha í janúar 2013 en miklar vonir voru bundnar við hann eftir gott gengi hjá Crystal Palace. Zaha náði hins vegar aldrei að festa sig í sessi hjá United og lék aðeins fjóra aðalliðsleiki með félaginu.

Hann var lánaður til Cardiff seinni hluta síðasta tímabils og svo til Crystal Palace í haust. Palace keypti hann svo frá United í febrúar en Zaha gerði fimm og hálfs árs samning við sitt gamla félag.

„Það er ekkert verra en fá ekki að spila,“ sagði Zaha í viðtali við Telegraph.

„Þú hugsar með sjálfum þér: hvað er ég? Fótboltamaður sem spilar ekki fótbolta? Þér finnst þú vera einkis virði þegar þú situr uppi í stúku og horfit á liðið þitt spila. Þú hefur ekkert til að tala um við hina leikmennina.“

Zaha, sem hefur leikið tvo A-landsleiki fyrir England, segir kornið sem fyllti mælinn hafi verið þegar hann fékk ekki að spila í 4-0 tapinu gegn MK Dons í deildarbikarnum í ágúst á síðasta ári. Í kjölfarið fundaði hann með Louis van Gaal, knattspyrnustjóra United.

„Ég ræddi við van Gaal og hann sagði að í augnablikinu væri ég ekki nógu góður til að komast í liðið,“ sagði Zaha sem fór svo til Crystal Palace eins og áður sagði.

Viðtalið í heild sinni má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×