Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Það er pressa í Garðabænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Okkur gekk mjög vel í fyrra, það er ekkert launungarmál. Það lá gríðarleg vinna að baki þeim árangri. En við fáum ekkert fyrir það núna,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar, í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Stjarnan vann sem kunnugt er sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í karlaflokki í sögu félagsins eftir dramatískan sigur á FH í úrslitaleik 4. október í fyrra.

Stjörnumanna bíður nú það erfiða verkefni að verja Íslandsmeistaratitilinn og Rúnar segir að það séu gerðar kröfur um árangur í Garðabænum.

„Það er pressa á okkur, fyrir utan liðið og í Garðabænum. En við pælum ekkert mikið í því. Við ætlum að gera okkar besta og ná góðum úrslitum,“ sagði Rúnar.

Stjörnumenn hafa misst fimm sterka leikmenn frá síðasta tímabili en Rúnar segir að skörð þeirra verði að einhverju leyti fyllt með ungum og uppöldum leikmönnum.

„Við tókum þá ákvörðun síðastliðið haust að byggja þetta svolítið upp á okkar leikmönnum sem tókst ágætlega í fyrra.

„Þeir leikmenn eru árinu eldri og reyndari núna og við ætlum ekkert að breyta út af okkar hugmyndafræði,“ sagði Rúnar en Stjörnumenn fengu góðan liðsstyrk í dag þegar færeyski landsliðsmarkvörðurinn Gunnar Nielsen samdi við félagið.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×