Enski boltinn

Van Gaal: Eigum enn möguleika á Englandsmeistaratitlinum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Gaal á blaðamannafundi.
Van Gaal á blaðamannafundi. vísir/getty
Gott gengi Manchester United undanfarnar vikur kemur stjóranum, Loius van Gaal, ekki á óvart. United mætir Aston Villa á morgun og getur þar með unnið sinn fimmta sigur í röð í deildinni. Van Gaal segir að titillinn sé ekki úr augsýn.

„Maður veit aldrei hvað gerist. Ég sagði að við myndum sjá til í lok mótsins. Það var gangrýni þegar við vorum með 30 stig af 33 mögulegum á einum tímapunkti, en ég sagði við myndum sjá til í lok móts," sagði van Gaal á blaðamananfundi.

United er núna í fjórða sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Chelsea sem á þó leik til góða.

„Þetta er enn rottuhlaup og Tottenham og Liverpool eru enn inn í þessu. Auðvitað höfum við unnið þau, en við eigum eftir að spila við þrjú efstu liðin. Það getur margt gerst og við getum unnið enn unnið deildina, stærðfræðilega."

Byrjunin var erfið hjá United. Þeir unnu þó sína leiki, en tap gegn MK Dons og fleiri liðum í neðri hluta deildarinnar vakti ekki mikla kátínu stuðningsmanna. Van Gaal segir gengið seinni hluta móts ekki koma sér á óvart.

„Ég er ekki hissa. Við erum á síðasta skrefinu af okkar ferli. Ég vona það," en átta leikir eru eftir af tímabilinu. Hollendingurinn segir að landsleikjahléið hafi ekki komið kannski á besta tímapunkti fyrir United sem hafði unnið fjóra leiki í röð fyrir það.

„Ég hugsaði eftir Liverpool leikinn að landsleikjahléið var ekki að koma á góðum tíma fyrir okkur, en þegar ég sá mína menn standa sig með landsliðum verð ég ánægður," sagði þessi geðþekki stjóri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×