Enski boltinn

QPR og Leicester með lífsnauðsynlega sigra | Þriðji sigur Everton í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joey Barton skoraði fjórða mark QPR í sigrinum á West Brom.
Joey Barton skoraði fjórða mark QPR í sigrinum á West Brom. vísir/getty
Everton vann sinn þriðja sigur í röð þegar liðið tók á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Phil Jagielka skoraði eina mark leiksins á 16. mínútu eftir hornspyrnu en með sigrinum komst Everton upp í 11. sæti deildarinnar. Dýrlingarnir eru í því sjötta, átta stigum frá Meistaradeildarsæti.

QPR vann langþráðan sigur á West Brom á útivelli, 1-4. Þetta var fyrsti sigur QPR frá því liðið vann 0-2 sigur á Sunderland 10. febrúar.

Staðan var 0-3 í hálfleik en þeir Eduardo Vargas, Charlie Austin og Bobby Zamora skoruðu mörkin.

Victor Anichebe minnkaði muninn í 1-3 á 58. mínútu en nær komust lærisveinar Tony Pulis ekki.

Joey Barton bætti fjórða marki QPR við á 90. mínútu en sex mínútum áður fékk Youssouf Mulumbu, miðjumaður West Brom, að líta rauða spjaldið.

QPR er nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti á meðan West Brom siglir lygnan sjó í 14. sæti.

Þá vann botnlið Leicester gríðarlega mikilvægan sigur á West Ham á King Power Stadium, 2-1.

Esteban Cambiasso kom Leicester yfir á 12. mínútu og þremur mínútum síðar fengu heimamenn kjörið tækifæri til að komast í 2-0 en Adrián varði vítaspyrnu David Nugent.

Það kom Leicester-mönnum í koll því Cheikhou Kouyaté jafnaði metin á 32. mínútu.

Þannig var staðan fram á 86. mínútu þegar Andy King skoraði sigurmark Leicester og tryggði liðinu sinn fyrsta sigur síðan 10. janúar.

Liðið er hins vegar enn í botnsætinu, nú fjórum stigum frá öruggu sæti.

Úrslitin í dag:

Arsenal 4-1 Liverpool

Man Utd 3-1 Aston Villa

Swansea 3-1 Hull

Everton 1-0 Southampton

West Brom 1-4 QPR

Leicester 2-1 West Ham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×