Enski boltinn

Sherwood: Gylfi á mikið hrós fyrir hversu góður Kane er í dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sherwood stýrir liði Aston Villa.
Sherwood stýrir liði Aston Villa. vísir/getty
Tim Sherwood, stjóri Aston Villa í dag, segir að frábært gengi Harry Kane á tímabilinu sé mörgu leyti að þakka stífum aukaæfingum hans með Christian Eriksen og Gylfa Sigurðssyni á síðasta tímabili.

Kane hefur skorað 26 mörk í öllum keppnum á tímabilinu og var meðal annars valinn í enska landsliðið. Hann var ekki lengi að stimpla sig þar inn, en einungis mínútu eftir að hann kom inná hafði hann skorað.

Sherwood stýrði Tottenham frá því um miðjan desember 2013 til miðjan maí 2014. Hann segir að Gylfi Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins og Swansea, og Christian Eriksen, Daninn í liði Tottenham, eigi skilið sinn skerf af hrósi fyrir hversu góður Kane er í dag.

„Við vissum aldrei hvort hann myndi ná þessum hæðum sem hann er í núna, en við vissum að hugarfar hans, löngun og ástríða var alltaf til staðar,” sagði Sherwood, sem nú þjálfar Aston Villa.

„Hann hefur gífurlega trú á sjálfum sér. Hann sér ekki neinn sem samkeppnisaðila, hann sér einungis sig sjálfan og langar að bæta sig sem leikmann.”

„Gylfi Sigurðsson og Christian Eriksen ættu að fá mikið hrós. Eins frábær og Harry var á æfingarsvæðinu þá tóku þessir tveir margar aukaæfingarnar með honum; klára færin, skjóta með hægri, skjóta með vinstri og sýndu Harry hvernig ætti að æfa rétt,” sagði Sherwood að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×