Körfubolti

Tómas Heiðar: Geri mitt besta að fylla í skarð Dags Kár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Körfuknattleiksmaðurinn Tómas Heiðar Tómasson, sem spilað hefur með Þór í Þorlákshöfn undanfarin þrjú ár, samdi við Stjörnuna í Garðabæ í dag og spilar með liðinu í Dominos-deildinn næsta vetur.

Hann játar því að þetta sé mikil áskorun fyrir sig enda Stjarnan verið að vinna titla og að komast langt í úrslitakeppninni undanfarin ár.

„Þetta er öðruvísi pakki en ég hef verið í undanfarið. Það var samt ekkert smá fínt skref fyrir mig að fara í Þór og komast í úrslitakeppnina í fyrsta skipti,“ sagði Tómas Heiðar við Vísi eftir undirskriftina.

„Það var mikil reynsla fyrir mig og vonandi tek ég núna næsta skref og verð í toppbaráttunni.“

Tómas Heiðar á að fylla í skarð Dags Kár Jónssonar sem yfirgefur nú Stjörnuna og heldur í háskólaboltann í Bandaríkjunum.

„Það var önnur ástæða fyrir því að ég kom hingað. Það var alveg galopið pláss fyrir mig eftir að Dagur fór þannig ég geri mitt besta í að fylla í það,“ sagði Tómas sem naut hverrar mínútu í Þorlákshöfn.

„Umhverfið þar hafði mikið að segja og Benni gaf mér þvílíkt traust til að gera það sem ég treysti mér til að gera og finna hvað ég treysti mér í.“

Hann segir Stjörnuna stærra félag en Þór: „Það hefur kannski verið það síðustu ár. Liðið er bikarmeistari og hefur verið að fara í undanúrslit og lokaúrslitin undanfarin ár. Stjarnan hefur náð aðeins betri árangri. Vonandi er þetta því skref í rétta átt,“ sagði Tómas Heiðar Tómasson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×