Erlent

ISIS birti myndband af eyðileggingu Nimrud

Samúel Karl Ólason skrifar
Fornar veggmyndir voru skemmdar með sleggjum og höggborum.
Fornar veggmyndir voru skemmdar með sleggjum og höggborum.
Vígamenn Íslamska ríkisins brutu styttur og aðrar minjar með sleggjum í borginni Nimrud í norðurhluta Írak. Á myndbandi sem samtökin hafa birt á internetinu má einnig sjá hvernig jarðýtur og iðnaðartæki voru notuð ódæðisins.

Rústir Assýrísku borgarinnar eru taldar vera um þrjú þúsund ára gamlar og eru á minjaskrá UNESCO. Í lok myndbands ISIS virðist sem að rústirnar séu sprengdar í loft upp.

Fyrir rúmri viku birtu samtökin einnig myndband sem sýndi eyðileggingu rústanna í Hatra. Sú borg var reist af Selevkídaveldinu fyrir rúmum tvö þúsund árum. Það veldi var stofnað af einum af hershöfðingjum Alexanders mikla árið 312 fyrir krist. Seinna stóð borgin af sér fjölmargar árásir Rómarveldis.

Íslamska ríkið er talið hafa hagnast gífurlega á sölu fornminja, en samtökin hafa farið ránshendi um fjölmargar fornar rústir á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Þar að auki hafa þeir skemmt mikinn fjölda stytta og fleiri minja sem þeir segja að hylli heiðnum guðum.

Í byrjun mars bárust fregnir af því að ISIS hefði farið yfir rústir borganna Nimrud og Hatra á jarðýtum, en ekki liggur fyrir hve miklar skemmdirnar eru í raun. Frá innrás Bandaríkjanna í Írak árið 2003 hafa ræningjar af og til farið ránshendi um rústirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×