Enski boltinn

Redknapp: Sápuópera hjá QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það kom mörgum á óvart þegar Harry Redknapp ákvað skyndilega að hætta sem knattspyrnustjóri QPR í febrúar af heilsufarsástæðum.

Redknapp sagði þá að hann væri á leið í erfiða hnéaðgerð og að hann gæti ekki gefið allt sitt í starfið hjá QPR. Nú segir hann að það hafi fleira komið til.

„Ég hélt að allir væru á mínu bandi en svo skyndilega fannst mér að sumir væru það en aðrir ekki,“ sagði hann. „Mér fannst alltaf eins og það væru einn eða tveir aðilar með sínar eigin áætlanir í gangi á bak við tjöldin. Þetta var eins og sápuópera.“

Redknapp er nú í endurhæfingu eftir hnéaðgerðina og getur nú gengið og staðið án þess að finna til verkja. En hann segir að hann hafi verið orðinn þreyttur á stanslausum sögusögnum um að hann yrði rekinn frá QPR.

„Það var talað um að Tim Sherwood væri á leiðinni inn. QPR var í blöðunum á hverjum degi. Ég hef verið hjá mörgum öðrum félögum - stórum félögum þar sem að maður þurfti ekki að glíma við svona lagað.“

„Þetta fór í taugarnar á mér og var stórt vandamál fyrir mig. Alltaf byrjaði þetta þegar við töpuðum nokkrum leikjum. Ég hélt alltaf að það stæði einhver á bak við þetta.“

Ummælin lætur hann falla í viðtali við BBC sem verður sýnt í heild sinni á morgun. Þar segir hann meðal annars að hann hefði talið fullvíst á sínum tíma að honum yrði boðið starf landsliðsþjálfara Englands þegar Roy Hodgson var ráðinn.

Viðtalið má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×