Bílar

Þeir frægustu áttu Facel Vega II

Finnur Thorlacius skrifar
Facel Vega II var framleiddur frá 1962 til 1964.
Facel Vega II var framleiddur frá 1962 til 1964.
Ekki ófrægara fólk en Ava Gardner, Toni Curtis, Pablo Picasso, Christian Dior, Frank Sinatra, Ringo Starr og Stirling Moss áttu svona bíl á sjöunda áratug síðustu aldar. Bíllinn þessi er franskur og heitir Facel Vega II.

Þar fór enginn venjulegur bíll heldur 8 strokka tryllitæki hlaðið lúxus. Facel Vega bílar voru framleiddir á árunum 1954 til 1964 en Facel Vega II var framleiddur milli 1962 og 1964.

Vélin í bílnum var frá Chrysler í Bandaríkjunum, 6,3 lítra og 390 hestöfl. Við hana var tengd fjögurra gíra sjálfskipting eða jafn margra gíra beinskipting. Með beinskiptingunni var hægt að ná 247 km hraða á bílnum og sló hann við bílum eins Aston Martin DB4, Ferrari 250 GT og Mercedes Benz 300SL Gullwing, sem allir voru vinsælir ofurbílar þess tíma.

Facel Vega II var rándýr bíll, en öllu léttari en þeir bandarísku bílar sem voru með eins stórar V8 vélar og sett var í hann þennan. Facel Vega II var með diskabremsum á öllum hjólum, power-stýri, rafdrifnar rúður, leðurklædd sæti og dempara sem stilla mátti innanúr bílnum.

Útlit mælanna í bílnum var líkt og í flugvélum, en innréttingin var öll afar vel úr garði gert. Það þótti merkilegt við þennan bíl að á 160 km hraða snérist vélin aðeins á 3.650 snúningum á mínútu, enda var aflið nægt og hann gat farið næstum 90 km hraðar.

Eins og að ofan var greint frá átti aragrúi frægs fólks eintak af bílnum, en fáir slógu við Ava Gardner sem átti þrjá svona bíla. Aðrir frægir eigendur þessa bíls voru Joan Collins, Max Factor, Herbert von Karajan, forseti Mexíkó, prinsessan af Mónakó, Hassan II konungur Marokkó, Anthony Quinn og Robert Wagner. 

Flottur að innan.





×