Innlent

ESB svarar Gunnari Braga: Ráðherraráðið íhugar breytingar á verklagi sínu

Bjarki Ármannsson skrifar
Gunnar Bragi segist gera ráð fyrir að Ísland verði nú tekið af lista umsóknarríkja.
Gunnar Bragi segist gera ráð fyrir að Ísland verði nú tekið af lista umsóknarríkja. Vísir/Pjetur
Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hefur borist svar við bréfi sínu til Edgar Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands sem nú gegnir formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins. Í bréfi Gunnars Braga, sem mikið var tekist á um á sínum tíma, var óskað eftir því að Ísland teldist ekki lengur umsóknarríki að sambandinu og að verklag sambandsins yrði lagað að því.

Í svari Rinkevics, sem lesa má í heild sinni hér, segir að ráðherraráðið hafi vandlega íhugað bréf Gunnars og að þessi afstaða ríkisstjórnar Íslands sé tekin til greina. Í ljósi þessa muni ráðið íhuga ákveðnar praktískar breytingar á verklagi sínu.

„Við viljum undirstrika mikilvægi samskipta Evrópusambandsins við Ísland, sem er áfram mikilvægur félagi sambandsins í gegnum aðild að EES-samningnum og Schengen, og í gegnum samstarf um málefni norðurskautsins,“ segir jafnframt í bréfinu.

Sjá einnig: Utanríkisráðherra segir aðildarferlinu að ESB lokið

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segist Gunnar Bragi gera ráð fyrir því að Ísland verði nú tekið út af lista umsóknarríkja eins og óskað hafi verið eftir.

„Það hefur legið ljóst fyrir að ríkisstjórnin lítur svo á að Ísland sé ekki umsóknarríki að ESB og í bréfi mínu til formanns ráðherraráðs ESB var þetta áréttað og sambandið beðið um að laga verklag sitt að því,“ segir Gunnar í tilkynningunni. „Ekki hefur verið ástæða til að ætla að annað væri uppi á teningnum. Með efni þessa svarbréfs höfum við fengið skýrleika í málið og er það fagnaðarefni.“


Tengdar fréttir

Ísland ekki lengur umsóknarríki ESB

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik.

Tillaga um ESB-slit á leiðinni

Vinna við tillögu um að slíta formlega viðræðum við Evrópusambandið (ESB) er á lokametrunum í utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×