Innlent

Bryndísi var bjargað frá drukknun: „Ég vakna við að ég er að ná andanum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Bryndís A. Rail er afar þakklát þeim sem komu að björgun hennar í sundlauginni á Hellu á laugardag.
Bryndís A. Rail er afar þakklát þeim sem komu að björgun hennar í sundlauginni á Hellu á laugardag. Vísir/Aðsend
„Ég vakna við það að ég er að ná andanum, segir Bryndís A. Rail, kennari úr Garðabæ, sem var bjargað frá drukknun í sundlauginni á Hellu síðastliðinn laugardag.

Bryndís hafði farið í heita pottinn áður en hún ákvað að synda nokkrar ferðir.

„Ég fann fyrir þreytu og svo bara sofnaði ég. Ég upplifði aldrei þessa drukknunartilfinningu eða að ég væri ekki að ná að bakkanum, að ég þyrfti að berjast,“ segir Bryndís en sundlaugarvörðum og sundlaugargestum hefur verið hrósað fyrir snarræði þegar ljóst var að Bryndís var meðvitundarlaus í lauginni.

Tveir sundlaugarverðir voru í afgreiðslunni og spruttu þeir af stað þegar þeim varð ljóst að ekki var allt með felldu. Þeir komu Bryndísi upp á sundlaugarbakkann þar sem þeir hófu endurlífgunartilraunir á henni. Þegar læknir kom á staðinn var hún komin til meðvitundar.

Sjá einnig:Hárrétt viðbrögð sundlaugarvarða á Hellu urðu konu til lífs

Forstöðumaður sundlaugarinnar sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að skyndihjálpar- og björgunarkennsla hefði bjargað lífi Bryndísar.

Hugsanlega of lengi í heita pottinum

„Ég er búin að vera í rannsóknum hjá hjartalæknum í dag og þá grunar að ég hafi misst meðvitund. Það er líklegast. Hugsanlega var ég of lengi í heita pottinum áður en ég fór ofan í og þá víkka æðarnar og svo lækkar maður í blóðþrýstingi,“ segir Bryndís en hún segist hafa áttað sig á aðstæðum um leið og hún komst til meðvitundar.

„Ég vakna við það að ég er að ná andanum. Ég er ekkert í þannig ástandi að ég hugsa hvar er ég og hvað gerðist. Ég gerði mér alveg fyllilega grein fyrir að ég væri í sundi á Hellu og það hefur eitthvað gerst. Það var kannski gott að ég fann það alveg að það var ekkert að mér. Ég skynjaði það alveg strax, ég kom alveg heil út úr þessu,“ segir Bryndís.

Hún hafði farið í sund ásamt tveimur frænkum sínum og var hringt í systur hennar og dóttur sem voru í sumarbústað í grennd við Hellu. „Þær höfðu ekki orð til að lýsa því hvernig var staðið að þessu,“ segir Bryndís.

Hún vill skila þakklæti til sundlaugargesta sem tóku frænkur hennar að sér og hringdu í systur Bryndísar.

Óaðfinnanlegt

„Svo auðvitað strákarnir tveir í afgreiðslunni sem hlupu út í laugina og náðu í mig. Og lögreglan sem keyrði dóttur mína í bæinn og sjúkraflutningamennirnir og þyrluteymið. Þetta var óaðfinnanlegt frá A til Ö. Bæði hjá þeim sem eru ólærðir og fagmenn, það er öll línan,“ segir Bryndís sem ætlar að færa starfsmönnum íþróttamiðstöðvarinnar köku og þakka fyrir björgunina.

En ætlar hún í sund aftur?

„Ég er ekki mjög spennt fyrir því að fara í sund en ég ætla að skella mér. Þá byrja ég á því að synda nokkrar ferðir og fer síðan í heita pottinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×